Valin verkefni ársins 2013

Búðarhálsstöð og

Búðarhálslína

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, var gangsett við hátíðlega athöfn í mars 2014. Með tilkomu Búðarhálsstöðvar er fallhæð vatns frá Þórisvatni að Búrfellsstöð fullnýtt að mestu. Nýja stöðin hámarkar þannig afrakstur af þeim orkulindum á svæðinu sem Landsvirkjun er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi í samræmi við hlutverk fyrirtækisins.

 

Mannvit kom mikið við sögu rannsókna, undirbúnings og hönnunar Búðarhálsstöðvar og Búðarhálslínu. Einnig sá Mannvit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og skipulag margvíslegra rannsókna því tengdu. Í Búðarhálsstöð kom Mannvit að virkjunartillögum frá upphafi og sá m.a. um rannsóknir og verkhönnun vegna virkjunarinnar, útboðshönnun lokubúnaðar og þrýstipípa ásamt gerð útboðsgagna og hönnunarrýni fyrir þann búnað. Mannvit sá um útboð og lokahönnun á 100 m bogabrú yfir Tungnaá ásamt vegagerð yfir Búðarhálsinn.

 

Mannvit veitti verkkaupa einnig aðstoð við samningagerð og kom að úttektum í verksmiðjum framleiðenda á búnaði, ásamt því að aðstoða við eftirlit á verkstað.

„Uppsett afl virkjunarinnar er í dag 95 MW með óbreyttu fyrirkomulagi frá verkhönnun og hefur nýst vel nú seinni part vetrar þar sem skortur hefur verið á orku vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum Landsvirkjunar.“

Ómar Ö. Ingólfsson

Verkefnisstjóri