Valin verkefni ársins 2013

Búnaður fyrir verksmiðju Elkem

Mannvit starfar fyrir járnblendiverksmiðjuna Elkem á Íslandi við endurbætur á ýmsum vinnslukerfum og búnaði. Mikið slit er á búnaði verksmiðjunnar vegna álags frá hráefni, hita og umhverfi og því eru endurbætur og viðhald stórir þættir í starfseminni. Miklar kröfur eru gerðar til rekstraröryggis ásamt öryggi starfsmanna. Framkvæmdum þarf að ljúka innan ákveðins tímaramma en með áherslu á öryggi starfsmanna við uppsetningu og notkun búnaðar.

 

Eitt af stærri verkefnum undanfarin ár er smíði og uppsetning nýrra reykhetta fyrir verksmiðjuofna nr. 1 og 2 ásamt kælikerfum sem þeim tengjast. Áætlað er að ljúka útskiptingu reykhetta árið 2015 en það er háð ástandi og rekstri ofna hverju sinni.

 

Mannvit kom einnig nýlega að hönnun á deiglustól fyrir útsteypingu kísiljárns í steypubelti verksmiðjunnar. Um er að ræða búnað sem tekur á móti deiglu með málmbráði frá deigluvagni, lyftir henni og hellir málmbráðinu til útsteypingar í steypubelti. Nýi búnaðurinn sparar talsverðan tíma við útsteypingu og fækkar verkþáttum. Þannig eykst öryggi starfsmanna við þessar varasömu aðstæður. Verkefnið kallaði á nána samvinnu milli hönnuðar og notenda búnaðarins en aðlögun fór að hluta til fram eftir að búnaðurinn var tekinn í notkun. Eftir stendur búnaður sem verkkaupi er ánægður með og er notaður í öruggari verksmiðju.

„Þegar unnið er með fyrirtæki eins og Elkem er nauðsynlegt að vera tilbúinn að takast á við áskoranir sem upp koma frá degi til dags og þetta hefur okkur tekist hingað til. Góður mælikvarði á farsælt samstarf er stöðugleiki beiðna frá Elkem um að takast á hendur ný verkefni, bæði smá og stór. Samstarfið hefur gengið mjög vel og dagurinn er fljótur að líða, sem er mælikvarði á að það er gaman í vinnunni.“

Sigurður Jónsson

Hönnun, eftirlit og verkefnisstjórnun

Gunnar Óli Sigurðsson

Hönnun, eftirlit og verkefnisstjórnun