Eyjólfur Árni Rafnsson

Forstjóri Mannvits

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja

Það má með sanni segja að á árinu 2013 hafi skipst á skin og skúrir í starfsemi Mannvits.

Um leið og við fögnuðum fimmtíu ára afmæli voru áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar enn að koma fram í rekstrinum þó að langtímasamningar hafi á sínum tíma hjálpað mikið til við að fleyta fyrirtækinu yfir verstu árin. Það hvarflaði hins vegar ekki að neinum að innlendar fjárfestingar sem hlutfall af landsframleiðslu yrðu á síðasta ári, þ.e. 5 árum eftir hrun, í sögulegu lágmarki allt frá síðari heimsstyrjöld. Þetta er í raun ótrúleg staðreynd sem hlýtur engu að síður að þýða að þessi mál munu þokast til betri vegar á næstu misserum.

 

Þrátt fyrir erfiðleika á heimamarkaði, samdrátt og erfiða fækkun í starfsmannahópnum á árinu 2013 voru þó einnig jákvæð teikn á lofti fyrir Mannvit. Með viðskipta- og verkefnaþróun á árinu var jarðvegurinn undirbúinn fyrir spennandi verkefni til framtíðar sem gaman verður að fylgjast með. Sókn Mannvits inn á erlenda markaði er hugsuð sem langhlaup. Við veljum tækifærin vel og vöndum til verka á þeim sviðum sem við þekkjum best til. Það að bjóða fram þjónustu fyrirtækisins erlendis er ekki skyndilausn á einu eða neinu og nauðsynlegt er að við undirbúum ný verkefni vel.

Þannig er t.d. mjög mikilvægt að þekkja vel þá viðskiptamenningu sem tíðkast á hverjum stað, enda er það oft svo að ekki þarf að fara langt út fyrir túnfótinn til að kynnast nýjum siðum og venjum.

„Viðskipta- og verkefnaþróun á árinu undirbjó jarðveginn fyrir spennandi verkefni til framtíðar sem gaman verður að fylgjast með."

Mannvit hefur vissulega áratugareynslu af verkefnum á erlendri grundu, einkum er varðar jarðhitanýtingu, en á undanförnum árum hefur þessi hluti starfseminnar orðið fjölbreyttari og betri samfella náðst í hana. Með því að einbeita okkur að ákveðnum sviðum og svæðum og festa þar rætur stefnum við að því að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og draga úr sveiflum sem einkenna heimamarkaðinn. Með vönduðum vinnubrögðum og góðu orðspori er mögulegt að byggja upp traust og viðurkenningu hjá samstarfsaðilum og viðskiptavinum. Verkfræðistofur á Íslandi geta aðeins vaxið að ákveðnu marki á íslenskum markaði og því er mikilvægt að sækja annað til að stækka frekar eða auka stöðugleika í rekstri. Sterkur heimamarkaður er þó alltaf grundvöllur að slíkri uppbyggingu.

Virkari í verkefnaþróun

Síðustu ár í rekstri Mannvits hafa boðið upp á spennandi áskoranir en viðbragð við þeim hefur t.d. verið að Mannvit er nú mun virkari aðili við þróun ýmissa fjárfestingarverkefna. Þannig er fyrirtækið ekki lengur aðeins í þjónustustarfsemi og tæknilegri aðstoð heldur einnig í því að finna og þróa spennandi framkvæmdamöguleika í samstarfi við fjárfesta, verktaka og sveitarfélög.

 

Eitt slíkt verkefni sem á næstu árum verður mjög áberandi í þjóðlífinu og borgarlandslagi höfuðborgarinnar er uppbygging á byggingarreitum við hlið Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Þar er á ferðinni mjög spennandi uppbygging í samstarfi við erlenda aðila, hótelbygging, íbúðir og verslunarrými. Verkefnið, sem beðið er eftir með eftirvæntingu, mun hafa mikil áhrif á upplifun okkar af höfuðborginni og áríðandi er að vel takist til.

Möguleikar á Íslandi til jákvæðra verkefna eru miklir. Auðlindir þjóðarinnar verða áfram nýttar til góðra verka þó að tekist sé á um leiðir í þeim efnum. Eitt svið orkunýtingar sem við hjá Mannviti erum viss um að geti þróast með jákvæðum hætti á næstu árum er frekari orkuvinnsla sem nýtist til matvælaframleiðslu, t.d. til útflutnings á grænmeti, frekari vinnslu sjávarfangs og aukins fiskeldis. Ég er viss um að við eigum eftir að sjá slíka þróun á næstu árum og Mannvit hefur komið að undirbúningi á slíkum verkefnum.

 

Þegar Mannvit hefur frumkvæði að slíkri verkefnaþróun er fyrirtækið frekar í bílstjórasætinu en farþegasætinu, þó svo að við munum áfram bjóða í framkvæmdaverkefni, selja þjónustu okkar og veita tæknilega ráðgjöf. En öllu þessu er mikilvægt að blanda vel saman og vera með augun opin fyrir verkefnum þar sem Mannvit getur haft meiri og beinni stjórn á þróun verkefnanna. Ég er þess fullviss að Mannvit mun þróast enn frekar í þessa átt á komandi árum.

Kapp er best með forsjá

Hið landsfræga „þetta reddast“ sjónarmið Íslendinga á sér sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar. Stundum er þetta styrkur sem verður til þess að verkefni sem virðast vera að renna út í sandinn eru hespuð af, en oft verður þetta líka til þess að langtímahugsun er látin sitja á hakanum. Stefnumótun til lengri tíma skortir oft, bæði í íslenskum stjórnmálum og rekstri fyrirtækja. Íslenskur veruleiki snýst oftar en ekki um sífelld viðbrögð við nýjum krísum. Þó er mikilvægt að gleyma því aldrei að horfa fram á veginn, í það minnsta til næstu 5 eða 10 ára. Það er nefnilega auðvelt að missa sjónar á því hvernig tímanum vindur fram.

 

Saga Mannvits sýnir að nauðsynlegt er að tryggja sífellt öruggan og stöðugan vöxt. Þetta sáum við þegar við fórum að kanna þróun fyrirtækisins í gegnum tíðina. Frá 1963 og til 2007 sýndi þróun í starfsmannahaldi fram á u.þ.b. 9% vöxt að jafnaði, sem vitanlega hélst í hendur við mikla uppbyggingu í íslensku samfélagi. Til framtíðar litið höfum við gert okkur í hugarlund að samsvarandi uppbygging fyrirtækisins geti verið um 3-6 % að jafnaði yfir lengra tímabil en slíkum vexti er æskilegt að ná með því að jafna sveiflur frá ári til árs.

Ef við festumst hins vegar í því að horfa einungis á styttri tímabil með slöku gengi getur oft reynst erfitt að muna eftir góðu árunum. Þannig hefur Mannvit á síðustu fimm árum einnig átt afar góð ár í rekstri og afkomu.

 

Á síðustu árum hafa orðið ákveðin kynslóðaskipti í starfsmannahópi Mannvits. Þeir sem lögðu af stað hafa verið skila keflinu til yngri kynslóða. Við slík tímamót er efst í huga þakklæti fyrir fórnfúst starf sem starfsmenn leggja á sig. Mannvit hefur lagt áherslu á að þekking og reynsla flytjist með skilvirkum hætti milli starfsmanna fyrirtækisins. Breið aldursdreifing í starfsmannahópnum er líka mikilvæg því að fyrirtækið þarf að vera í stakk búið að mæta áskorunum samtímans. Mannvit er komið á virðulegan aldur og á fimmtugasta og fyrsta aldursárinu horfum við glöð og bjartsýn til framtíðar með öflugum hópi starfsmanna.