Valin verkefni ársins 2013

Spennuhækkun háspennulína Statnett í Noregi

Orkudreifingarfyrirtæki Norðmanna, Statnett, vinnur nú að umfangsmesta spennuhækkunarverkefni á raforkukerfi sem fram hefur farið í heiminum. Rannsóknir fyrirtækisins hafa sýnt að hægt sé að hækka spennu um nærri 30 prósent á núverandi 300 kV háspennulínum landsins í stað þess að byggja nýjar 420 kV línur. Þessi aðgerð þýðir að hægt sé að spara næstum sjö milljarða NOK í uppfærslu raforkukerfis Statnett til ársins 2030. Með því er hægt að bregðast við, á tiltölulega skömmum tíma, umtalsverðri aukningu á orkueftirspurn í Noregi.

 

Mannvit, ásamt verkfræðistofunni Ramböll, undirritaði rammasamning við Statnett á síðasta ári. Í gegnum hann er Mannvit hluti af teymi þriggja ráðgjafa Statnett sem vinna að spennuhækkun á um 1500 km af raflínum. Núverandi möstur og leiðarar verða notaðir áfram en hönnun á spennuhækkuninni er skipt í þrjá hluta: Fyrst er núverandi lína greind og gert eins nákvæmt líkan af henni og mögulegt er. Í öðrum fasa eru hannaðar fyrstu tillögur að uppfærðri einangrun og  „vandræða“ turnar greindir. Þriðji fasi felur loks í sér ýtarlega hönnun, líkindagreiningu og endanlegar útfærslur.

 

Áður en til framkvæmda kemur sjá ráðgjafar í samvinnu við Statnett um innkaup á efni og eftirfylgni efnispantana ásamt gerð tæknikröfulýsinga fyrir framkvæmd. Einnig munu ráðgjafar sjá um ráðgjöf á framkvæmdatíma, eftirfylgni á verkstað og gerð lokaskýrslu um verkefnið.

„Það er einstakt tækifæri að vera þátttakandi í viðamestu spennuhækkun á heimsvísu. Við erum að feta ótroðnar slóðir við uppfærslu núverandi háspennulína og auka flutningsgetu umtalsvert með tiltölulega litlum tilkostnaði.“

Daníel Scheving Hallgrímsson

Verkefnisstjóri