Mannvit býður þjónustu á öllum helstu fagsviðum verkfræðiráðgjafar, jarðvísinda, byggingarefnarannsókna, verkefnastjórnunar og heildarumsjón verkefna.

Starfsemin

Áratugareynsla af orkuuppbyggingu

Einn þriggja hornsteina í starfsemi Mannvits er þjónusta á sviði orkutengdra verkefna þar sem þekking hefur byggst upp innan fyrirtækisins vegna náttúrulegra aðstæðna við nýtingu fallvatna og jarðvarma á Íslandi. Mannvit hefur í áratugi þjónað íslensku orkufyrirtækjunum og með einum eða öðrum hætti komið að flestum framkvæmdum á því sviði hér á landi síðastliðna hálfa öld. Á það jafnt við um verkefni á sviði vatnsafls og jarðhita, sem og við dreifingu orkunnar og flutning.

 

Á undanförnum árum hefur starfsemi fyrirtækisins á þessu sviði aukist mjög á alþjóðavettvangi, ekki síst á sviði jarðhita. Það er ánægjulegt að merkja árangurinn sem náðist á erlendum mörkuðum þar sem við sóttum í okkur veðrið í þjónustu jarðhita, m.a. í Þýskalandi, Ungverjalandi, Kenía og Filippseyjum. Mannvit hefur þannig skapað sér traust á þeim markaði og byggir þar á áratugalangri reynslu á innanlandsmarkaði. Í Noregi og Evrópu varð aukning á sviði bygginga, flutningskerfis raforku, jarðhita- og vatnsaflsverkefna.

 

Þrátt fyrir samdrátt í þessum efnum hér heima var opnun Búðarhálsvirkjunar einn af hápunktum í orkuuppbyggingu hérlendis á árinu 2013. Sú framkvæmd er eðlilegt framhald af nýtingu fallhæðar í virkjanakerfi Landsvirkjunar í efri hluta Þjórsár.

„Mannvit hefur í áratugi leikið mikilvægt hlutverk við nýtingu orkulinda Íslands og mun vonandi gera áfram. Sú þekking sem hefur skapast innan fyrirtækisins er nú orðin verðmæt útflutningsvara. Við væntum því mikils í þeim efnum á komandi árum.“

Árni Magnússon

Framkvæmdastjóri orku

Uppbygging fjölbreytts iðnaðar

Þjónusta á sviði vélaverkfræði er eitt af aðalsmerkjum Mannvits. Sérfræðingar okkar leysa fjölbreytt verkefni í vélahönnun, stýringum, þróun tæknilausna, hagkvæmniathugun og verkefnastjórnun fyrir íslenskan iðnað. Fyrirtækið býr einnig að mjög sérhæfðri tækniþekkingu til að veita áliðnaðinum þjónustu, innanlands sem utan, en þau verk eru unnin af dótturfélagi okkar, HRV. Sérfræðingar okkar sinna öllum helstu verkþáttum við undirbúning, byggingu og rekstur mannvirkja sem tengjast orkufrekum iðnaði á Íslandi. Þar má nefna mat á umhverfisáhrifum, umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun, áætlanagerð, undirbúningsrannsóknir og hönnun mannvirkja og búnaðar.

 

Víða er unnið að undirbúningi verkefna í orkufrekum iðnaði á Íslandi og það gefur til kynna að fjárfesting sé framundan. Á árinu 2013 var þó ekki mikið um slík verkefni og því snéri starfsemi iðnaðarsviðs að miklu leyti að verkefnaþróun. Segja má að árið hafi einkennst af undirbúningi stærri verkefna. Í því sambandi má nefna olíu- og gasverkefni í norðurhöfum sem eru ennþá á byrjunarreit en undirbúningur á Íslandi er grundvöllur að því að virðisaukandi þjónusta verði hér á landi.

 

Mannvit hefur unnið meira að smærri verkefnum á þessu ári en venjan er.  Meðal annars var unnið að hönnun og uppbyggingu fiskimjölsverksmiðja, efnaverksmiðju, ásamt gasvinnslu og jarðgerð úr lífrænum úrgangi og sorpi. Fjárfesting í sjávarútvegi fór lítillega af stað en betur má ef duga skal og við teljum að þar geti Mannvit komið mikið að uppbyggingu og endurnýjun.

 

Innreið Mannvits á ný markaðssvæði eins og Noreg og Grænland hélt áfram. Lítil verkefni hófust á Grænlandi en á þeim markaði er að finna spennandi tækifæri í framtíðinni.

„Frá því að álverið í Straumsvík hóf rekstur árið 1970 hefur verið mikil uppbygging kunnáttu og hugvits í kringum orkufrekan iðnað á Íslandi. Massíf aðkoma Mannvits að þeim verkefnum hefur leitt til umtalsverðar tækni- og verkþekkingar sem er einn af hornsteinum áframhaldandi sóknar félagsins í uppbyggingu iðnaðar.“

 

Haukur Óskarsson

Framkvæmdastjóri iðnaðar

Mannvirki af ýmsu tagi

Mannvit veitir alhliða og fjölbreytta þjónustu á sviði mannvirkja. Okkar viðskiptavinahópur er mjög breiður og því þurfum við að hlusta vel á viðskiptavininn til að komast að því hvaða þjónusta er hagstæðust fyrir hann. Sumir vilja að við sjáum um alla verkþætti á meðan aðrir viðskiptavinir hafa mjög sterkar skoðanir á því hvernig verkefnið skuli unnið. Það er því nauðsynlegt að nálgast verkefnin á mismunandi vegu eftir viðskiptavinum.

 

Það er mikil samkeppni um þau verkefni sem eru í gangi á okkar mörkuðum, þ.e. á Íslandi og í Noregi. Við höfum lagt ríka áherslu á að þróa okkar eigin verkefni og árið 2013 var engin undantekning í þeim efnum. Verkefni í Noregi koma hinsvegar mest í gegnum tilboðsgerð.

 

Af helstu verkefnum árið 2013 á sviði mannvirkja má nefna hönnun hótels og íbúða við Hörpu, breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hönnun gagnavera, skóla í Noregi, en þar í landi er einnig töluvert um jarðtækniverkefni. Árið 2013 einkenndist einnig af fjölbreyttum verkefnum á sviði samgangna og skipulags en þar má nefna endurhönnun á Hverfisgötu, skoðun á nýju flugvallarstæði fyrir Reykjavíkurflugvöll og nýrri umferðarmiðstöð og endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

 

Björgunarpakki fyrir stærra húsnæði, brunatæknileg ráðgjöf, úttekt á innivist vinnustaða og áhættumat eru helstu verkefni á sviði umhverfis- og öryggismála.

 

Á rannsóknarstofu okkar hafa verið unnin fjölbreytt verkefni bæði hér á landi og í Noregi.  Helstu verkefnin árið 2013 voru plötu-, malbiks og steypuprófanir fyrir hina ýmsu viðskiptavini ásamt fylliefnisprófunum.  Einnig hefur starfsfólk okkar rannsakað gæði húsnæðis víða um land, sérstaklega m.t.t. myglusvepps og rakavandamála.

„Mannvit hefur verið að auka veltuna á mannvirkjamarkaði töluvert undanfarin tvö ár og stefnir að áframhaldandi vexti á sínum helstu mörkuðum sem eru Ísland og Noregur.“

Tryggvi Jónsson

Framkvæmdastjóri mannvirkja

Öll starfsemi Mannvits er vottuð samkvæmt alþjóðlegum gæða-, umhverfis- og öryggis­stjórnunarstöðlum.

ISO 9001:2008

ISO 14001:2004

OHSAS 18001:2007

Mannvit og dóttur- og aðildarfélög eru með starfsemi í Bretlandi, Ungverjalandi, Þýskalandi, Chile og Noregi, auk Íslands. Aðalskrifstofa Mannvits er í Reykjavík ásamt sjö starfsstöðvum utan Reykjavíkur.

Framkvæmdastjórn

Mannvits 2013

Eyjólfur Árni Rafnsson

Forstjóri

Árni Magnússon

Framkvæmdastjóri orku

Drífa Sigurðardóttir

Starfsmannastjóri

Haukur Óskarsson

Framkvæmdastjóri iðnaðar

Skapti Valsson

Aðstoðaforstjóri

Sigurhjörtur Sigfússon

Fjármálastjóri

Tryggvi Jónsson

Framkvæmdastjóri mannvirkja