Jón Már Halldórsson

Stjórnarformaður Mannvits

„Á síðasta ári var blásið til mikillar sóknar á öllum mörkuðum fyrirtækisins."

Að ná góðri viðspyrnu

Síðustu ár í rekstri Mannvits hafa einkennst af ótryggu ytra umhverfi eins og vitanlega á við um flestöll fyrirtæki á Íslandi. Það fór ekki fram hjá neinum að bankakreppan síðla árs 2008 hafði mikil áhrif á fjárfestingar og þar með verkefnastöðu verkfræðifyrirtækja. Kreppan hafði reyndar ekki mikil áhrif á Mannvit fyrr en síðla árs 2012 vegna góðra langtímasamninga sem margir hverjir náðu fram á árið 2012. Þetta gerir það að verkum að árið 2013 var eitt versta árið í hálfrar aldar rekstrarsögu fyrirtækisins en árið var jafnframt notað til markvissrar verkefnaþróunar og hagræðingar í rekstri. Óhætt er að fullyrða að á síðasta ári var blásið til mikillar sóknar á öllum mörkuðum fyrirtækisins, bæði innanlands og erlendis. Þessi markvissa vinna er nú að skila sér með auknum verkefnum, ekki síst erlendis. Innlendi markaðurinn er enn heftur þar sem fjárfesting hefur ekki náð sér á strik en fyrirséð er að nú horfi til betri vegar þar sem viðræður standa yfir við fjárfesta á ýmsum sviðum. Horfur eru því mun betri en í upphafi árs 2013 og rekstrartölur á fyrstu mánuðum 2014 sýna að aðstæður eru allt aðrar og betri en í upphafi síðasta árs.

Traustir stjórnarhættir

Mannvit hefur þrjú ár í röð fengið viðurkenninguna „fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“. Við getum spurt okkur hvaða máli þetta skipti.

 

 

 

 

Góðir stjórnarhættir taka við þar sem löggjöfinni sleppir, fela í sér auknar skyldur stjórnenda fyrirtækja á ýmsum sviðum og leggja grundvöll að trausti og gegnsæi í starfsemi félagsins. Traust er eitt af þeim gildum Mannvits sem fyrirtækið starfar eftir. Traust og gagnsæi í rekstri eru nauðsynlegir þættir fyrir allan framgang fyrirtækja, þar með talin samskipti við hluthafa. Mikilvægir þættir í þessu eru starfsreglur stjórnar, starfsáætlun stjórnar og stjórnháttayfirlýsing sem eru uppfærð í upphafi hvers rekstrarárs og aðgengileg öllum hluthöfum. Skýrar reglur og áætlanagerð auðvelda störf stjórnar og gera þau markvissari. Þannig fá hluthafarnir skýrari mynd af stjórnarstörfum.

Góðir stjórnarhættir snúast ekki aðeins um fundarsköp og formlegheit.

Stjórn Mannvits er full bjartsýni á framtíðina og viss um að þær aðgerðir sem gripið var til á rekstrarárinu 2013 og sú verkefnaþróun og hagræðing sem ráðist var í, muni skila fyrirtækinu góðum árangri á árinu 2014.

STJÓRNHÁTTAYFIRLÝSING

Stjórn Mannvits 2013

Frá vinstri: Pálína Gísladóttir, Sigurður Sigurjónsson, Jón Már Halldórsson, Anna Þórunn Björnsdóttir og Gunnar Herbertsson