Valin verkefni ársins 2013

Daneborg olíubirgðastöð á Grænlandi

Danska varnarmálaráðuneytið stendur að endurnýjun á olíubirgðastöð við Daneborg herstöðina á austurströnd Grænlands. Þar eru höfuðstöðvar hinnar heimsfrægu SIRIUS hundasleðasveitar sem gætir hagsmuna Dana í hánorðri. Það verkefni er í höndum sex sleðasveita, en í hverri þeirra eru tveir hermenn og þrettán sleðahundar.

 

Við verkefnið er Mannvit undirverktaki hjá Per Aarsleff AS sem er einn stærsti jarðvinnuverktaki Danmerkur en Mannvit sér um hönnun á sviði rafmagns, véla og burðarvirkja. Aðstæður á verkstað eru mjög krefjandi. Aðeins um 1-2 m eru niður á sífrera og aðeins hægt að vinna um tvo mánuði á ári vegna erfiðra veðurskilyrða. Skylda er að starfsmenn hafi með sér riffil til að verja sig ef ísbjörn kemur á vinnusvæðið.

„Það er ánægjulegt að vera í samstarfi við jafn sterkan verktaka og Per Aarsleff. Í framhaldi af þessu verkefni hefur Mannvit fengið samskonar samning um endurgerð olíubirgðastöðvar á Station Nord sem staðsett er um 920 km frá Norðurpólnum.“

Ásmundur Magnússon

Verkefnisstjóri